Að gefnu tilefni vegna umfjöllunar um Novis, samstarfsaðila Tryggingar og ráðgjafar ehf. (T&R), meðal annars í Kveiksþætti RÚV hinn 2. desember 2025, vill T&R taka eftirfarandi fram.
Novis hefur til dagsins í dag, og frá þeim degi árið 2023 sem það var svipt heimild til þess að selja nýjar líftryggingar, efnt að fullu hvern einasta samning sem það hefur gert á Íslandi. Allir viðskiptavinir sem hafa sagt upp samningum sínum og óskað innlausnar hafa fengið inneignir sínar greiddar. Hver einasta réttmæt tjónskrafa sem hefur verið gerð á Novis, hvort sem það eru líftryggingabætur eða bætur vegna sjúkdóma eða slysa, hafa verið gerðar réttilega upp.
Samkvæmt upplýsingum T&R þá hefur Novis frá júní 2023, þeim tímapunkti sem félagið var svipt leyfi til að selja nýjar tryggingar, og til dagsins í dag, greitt tæplega 3,4 milljarða króna sem inneignir til Íslendinga í kjölfar uppsagnar þeirra á samning og nær 150 milljónir króna í hreinar tjónabætur vegna andláts, sjúkdóma eða slysa viðskiptavina á Íslandi.
Héraðsdómur í heimalandi Novis hefur hafnað kröfum eftirlitsaðila um skipti félagsins sem var staðfest af áfrýjunardómstóli. Jafnframt er fyrirliggjandi að í gangi er dómsmál í heimalandi Novis um lögmæti þeirrar ákvörðunar eftirlitsaðila að svipta félagið leyfi til sölu trygginga, en um þá ákvörðun er verulegur ágreiningur. Ekki er óvarlegt að áætla að niðurstaða í því máli muni liggja fyrir árið 2026. T&R veit ekki frekar en aðrir hver niðurstaða þess dómsmáls verður og hvernig úr þeirri niðurstöðu verði unnið.
Þegar T&R hóf samstarf við Novis hafði fyrirtækið fullt starfsleyfi í sínu heimalandi, Slóvakíu, og var með umfangsmikla starfsemi í nokkrum löndum Evrópu, þar á meðal Ítalíu og Þýskalandi. Aðstandendur félagsins voru alþjóðlegur hópur fjárfesta, þar með talið frá Austurríki, og höfðu langa reynslu af líftryggingastarfsemi. Vörur félagsins þóttu framsæknar og með sterka vátryggingavernd. Forsvarsmenn T&R töldu að vörur félagsins ættu fullt erindi við Íslendinga og því varð af samstarfssamningi. Það segir sig sjálft að T&R semur eingöngu við tryggingafélög sem eru fullkomlega lögmæt og með fullt starfsleyfi. Sú var raunin með Novis þegar samstarfssamningurinn var gerður.
Það var því T&R, rétt eins og viðskiptavinum Novis hér á landi, verulegt áfall þegar Novis var árið 2023 svipt leyfi til þess að selja nýjar vátryggingar. Í þeirri stöðu getur T&R ekki annað gert en að aðstoða viðskiptavini sína eftir fremsta megni og veita þeim upplýsingar um stöðu mála eftir því sem þær berast. Félagið mun halda því áfram, hér eftir sem hingað til.
Það má taka fram að hver sem niðurstaða dómsmála Novis verður, þá eru hagsmunir og öryggi viðskiptavina ávallt í fyrirrúmi hjá T&R. Það er okkur mjög mikilvægt að viðskiptavinir okkar upplifi traust í viðskiptum við okkur. Virkir samningar Novis eru í dag, hinn 3. desember 2025, liðlega 2.000 talsins, en viðskiptavinir T&R eru á sama tíma um 50 þúsund.
