Skip to main content
Fréttir

Fagleg og vönduð vinnubrögð starfsfólks Tryggingar og ráðgjafar ehf.

By desember 3, 2025No Comments

Að gefnu tilefni vegna umfjöllunar um vinnubrögð sölufólks hjá tryggingamiðlunum, meðal annars í Kveiksþætti RÚV hinn 2. desember 2025 þar sem Trygging og ráðgjöf ehf. (T&R) var til umfjöllunar ásamt fleiri fyrirtækjum, vill T&R taka eftirfarandi fram.

Allt starfsfólk T&R undirgengst þjálfun og símenntun þar sem fagleg og vönduð vinnubrögð, gegnsæi og heiðarleiki í samskiptum og viðskiptum eru aðalatriðin. Forsvarsfólk fyrirtækisins leggur gríðarlega áherslu á að hugsað sé um hagsmuni viðskiptavina og setur traust þeirra og öryggi framar öllu.

T&R hefur 25 ára rekstrarsögu og haft milligöngu um gerð tugþúsunda tryggingasamninga gegnum tíðina og er viðskiptavinir fyrirtækisins í dag um 50 þúsund talsins.

Eitt af því sem gerir sölustarfsemi trygginga ánægjulega er þegar viðskiptavinir þurfa á tryggingum sínum að halda þegar áfall kemur upp og peningabætur fást sem léttir þeim, eða aðstandendum lífið. Viðskiptavinir hefðu hugsanlega ekki verið í þeirri aðstöðu ef T&R hefði ekki aðstoðað þá við að koma á tryggingarsamningi. Milliganga T&R um tjónabætur nemur hundruðum gegnum tíðina. Milliganga T&R um innlausn líftryggingarsamninga nemur þúsundum þar sem viðskiptavinir innleysa peningaeignir sem þeir hafa til frjálsrar ráðstöfunar og hefðu hugsanlega ekki verið til staðar ef tryggingasamningur hefði ekki verið gerður.

Gerð tryggingasamninga þykir sjálfsagður hlutur í nútíma þjóðfélagi og flest fólk er sammála um skynsemi þess að vátryggja líf sitt og líkama til að mæta óvæntum áföllum sem hafa áhrif á afkomu hinna vátryggðu eða aðstandenda þeirra. Sömuleiðis eru flestir sammála um að fyrirhyggja til eftirlaunaára, til dæmis í formi séreignasparnaðar, sé skynsamleg ráðstöfun. Starfsemi af þessu tagi hefur verið stunduð í marga áratugi á Íslandi með áþekkri aðferðafræði.

Lagaleg umgjörð á gerð tryggingarsamninga og upplýsingaskylda í því samhengi er þannig að viðskiptavinir geta ekki gert tryggingarsamninga nema að vel athuguðu máli og eftir vandlega kynningu á samningnum sjálfum ásamt lögbundinni þarfagreiningu dreifingaraðila. Skjalagerð er iðulega flókin og þarf að taka tillit til fjölmargra lagalega þátta, svo sem laga um vátryggingarsamninga og laga um persónuvernd.

T&R hefur alltaf fundið fyrir mikilli ánægju og velvild viðskiptavina og leggur áherslu á gott, heiðarlegt og hreinskilið samband við þann stóra hóp.