Að gefnu tilefni vegna umfjöllunar um stjórnvaldssekt á Tryggingar og ráðgjöf ehf. (T&R), meðal annars í Kveiksþætti RÚV hinn 2. desember 2025, vill Tryggingar og ráðgjöf ehf. taka eftirfarandi fram.
Stjórnvaldssekt var lögð á T&R hinn 13. nóvember 2020 og nam 35 milljónum króna. Sú sekt snerist um tvennt, sem að mati Seðlabanka Íslands, eftirlitsaðila fyrirtækisins, kom í ljós við úrtakskönnun vinnubragða hjá T&R á tímabilinu 01.08.2019 til 08.09.2019. Annars vegar hafi T&R ekki á réttan lögformlegan máta varað viðskiptavini sína við því að ef þeir vildu ekki þiggja þarfagreiningu, þá gæti fyrirtækið ekki uppfyllt lagaskyldu sína um ráðgjöf. Hins vegar hafi viðskiptavinum verið ráðlagðar fjárfestingarleiðir sem ekki hentuðu alltaf þörfum viðskiptavina eins og framkvæmd þarfagreining gaf tilefni til.
T&R brást þegar í stað við athugasemdum eftirlitsaðila, greiddi sektina, endurskoðaði verkferla frá umræddu tímabili og breytti vinnubrögðum í samræmi við niðurstöður. Mál þetta fór síðan til umfjöllunar dómstóla. Landsréttur dæmdi svo að annað af sakarefnum Seðlabanka Íslands stæðist ekki, það er hvernig staðið var að lögbundinni viðvörun. Lokaniðurstaða Landsréttar var sú að sektin var lækkuð til muna eða niður í 9 milljónir króna. Seðlabanka Íslands var gert að endurgreiða 26 milljónir króna til T&R.
